1 SAMÞYKKT Á ÞJÓNUSTUSKILMÁLUM
1. Með því að haka í til samþykktar þessara skilmála samþykkir áskrifandi að lúta eftirfarandi þjónustuskilmálum. Samþykki skilmálanna er skilyrði þess að áskrifandi megi nota þjónustu 1984 ehf., en með þjónustu er átt við net, vélbúnað, hugbúnað og tækniaðstoð 1984 ehf. Áskrifandinn samþykkir að lúta öllum þeim skilyrðum sem fram koma í skilmálum þessum. Skilmálarnir eru samningur milli 1984 ehf. og áskrifandans og taka gildi við samþykki áskrifandans.

2. Áskrifandi lýsir yfir og ábyrgist að hann sé fullra átján ára að aldri, fjár síns ráðandi og að fullu sjálfráða ef hann er einstaklingur, en sé áskrifandi fyrirtæki eða persóna að lögum að hann sé til þess bær að taka á sig þær skuldbindingar sem skilmálar þessir greina. Ennfremur lýsir áskrifandi því yfir og ábyrgist að allar upplýsingar sem hann hefur gefið 1984 ehf. séu réttar, fullnægjandi og í gildi og að hann muni framvegis ætíð gefa 1984 ehf. upplýsingar sem eru réttar, fullnægjandi og í gildi við endurnýjun og skráningu þjónustu. Áskrifandi lýsir yfir og ábyrgist að hann muni upplýsa 1984 ehf. um breytingar á öllum upplýsingum til að 1984 ehf. hafi ætíð réttar, fullnægjandi og gildandi upplýsingar. Viðkomandi lögráðamenn geta gert samning við 1984 ehf. fyrir hönd ólögráða eða ófjárráða einstaklinga og þurfa þá að hafa samþykkt notkun hins ólögráða eða ófjárráða á þjónustu 1984 ehf. Lögráðamaður tekur á sig allar skyldur og ábyrgð sem leiða af þeim þjónustusamningi sem við á hverju sinni og þessum þjónustuskilmálum.

3. Áskrifendur geta séð gildandi útgáfu þessara skilmála hverjusinni á www.1984.is/skilmalar. Öll notkun á þjónustu 1984 ehf. eftir breytingar, viðbætur, eða fjarlægingu á þessum skilmálum, í heild eða að hluta, felur í sér samþykki áskrifandans á öllum slíkum breytingum, viðbótum eða fjarlægingu. Ef áskrifandi samþykkir ekki slíkar breytingar, viðbætur eða fjarlægingu á skilmálum stendur honum það úrræði til boða að segja upp áskrift sinni samkvæmt þriðja hluta þessara skilmála.

2. TÍMABIL - GREIÐSLUR - ENDURNÝJUN ÞJÓNUSTUSAMNINGS
1. Samningssamband milli 1984 ehf. og áskrifanda kemst á þegar áskrifandi samþykkir þessa skilmála og lýkur með þeim hætti sem lýst er í gr. 2.04 og 3.01 þessara skilmála .

2. Áskrifandi samþykkir að greiða öll viðeigandi þjónustugjöld samkvæmt verðskrá eða í samræmi við tilboð sem í gildi eru þegar pöntun eða endurnýjun á þjónustusamningi er gerð.

3. Fjórtán dögum áður en þjónustusamningur rennur út, er 1984 ehf. heimilt að endurnýja þjónustusamning áskrifanda til jafn langs tíma og áskrifandi valdi í upprunalegri pöntun sinni á þjónustu 1984 ehf. Í því tilviki gildir almenn gjaldskrá 1984 ehf. en ekki þau sérstöku tilboð sem 1984 ehf. kann að hafa í boði á þeim tíma sem endurnýjun á sér stað og gjald fyrir tímabilið verður innheimt með þeim hætti er áskrifandi valdi upprunalega sem greiðsluaðferð fyrir þjónustu 1984 ehf. Áskrifandi fellst á að 1984 ehf. framkvæmi sjálfvirka endurnýjun þjónustusamnings með þeim hætti er að ofan greinir. Áskrifandi fellst á að endurnýjun þjónustusamnings sé á ábyrgð áskrifanda sjálfs og að á 1984 ehf. hvíli engin skylda til sjálfkrafa endurnýjunar þjónustusamnings. Áskrifandi fellst á að ef 1984 ehf. nýtir ekki heimild sína til sjálfkrafa framlengingar og áskrifandi hefur ekki sjálfur endurnýjað áskrift sína, þá falli hún, og þjónusta henni tengd, niður á þeim degi er gildandi áskrift fellur úr gildi.

4. Til að stöðva sjálfvirka endurnýjun þjónustusamnings þarf áskrifandi að tilkynna 1984 ehf. um það sextán dögum áður en áskrift fellur úr gildi með tölvupósti á netfangið billing@1984.is með efnislínunni (Subject header) "Stöðvið sjálfvirka endurnýjun áskriftar", og í texta þess tölvupóstskeytis skal áskrifandi gefa nánari upplýsingar um áskriftina. 1984 ehf. fellst á að berist slíkur tölvupóstur á tölvupóstfangið billing@1984.is a.m.k. sextán dögum áður en áskrift rennur út verði áskrifandi ekki krafinn um frekari áskriftargjöld vegna viðkomandi áskriftar og að þjónusta falli niður á þeim tíma sem áskrift rennur út.

5. Ef áskrifandi er ekki einstaklingur heldur fyrirtæki, félag eða persóna að lögum lofar sá sem gerir eða endurnýjar þjónustusamning fyrir hönd slíks áskrifanda að hann hafi umboð og leyfi til að skuldbinda áskrifandann með þeim hætti er þessir skilmálar greina.

3. UPPSÖGN ÞJÓNUSTUSAMNINGS - ENDURGREIÐSLUR
1. 1984 ehf. veitir 14 daga endurgreiðsluábyrgð á deildri hýsingarþjónustu og 7 daga endurgreiðsluábyrgð á VPS sýndarþjónum og fyrirtækjahýsingu. Þetta þýðir að ef afturköllun á þjónustubeiðni sem endurgreiðsluábyrgð á við um berst 1984 ehf. innan fyrrnefndra tímamarka frá pöntun mun 1984 ehf. endurgreiða áskrifanda þjónustugjöld er áskrifandi hefur reitt af hendi. Hafi áskrifandi greitt 1984 ehf. fyrir skráningu léns eða skráning léns hefur fylgt hýsingu, heldur áskrifandi réttindum vegna þeirrar skráningar, enda er engin endurgreiðsluábyrgð á gjöldum vegna skráningar léna. Skráningargjald lénsins er þá dregið frá endurgreiðsluupphæðinni. Áskrifandi heldur þá réttindum sínum vegna lénsins sem um ræðir, nema áskrifandi biðji um afskráningu lénsins. Afskráning leiðir ekki til endurgreiðslu lénsskráningargjalds.

2. Áskrifandi má segja upp  hýsingaráskrift sinni hvenær sem er á samningstímanum eftir þau tímamörk sem getið er í grein 3.01 og fyrir sjálfvirka endurnýjun þjónustusamnings. Mun þá 1984 ehf. endurgreiða honum þau gjöld fyrir alla þá almanaksmánuði samningstímans sem ekki eru byrjaðir að líða þegar uppsögn berst. Þetta endurgreiðsluloforð á aðeins við um gjöld vegna deildrar hýsingarþjónustu, VPS sýndarþjóna og Fyrirtækjahýsinga, sbr. gr. 3.01 þessara skilmála.

3. Áskrifandi skal tilkynna uppsögn á áskrift sinni á netfangið billing@1984.is og skal tilkynningin send frá tengslanetfangi áskrifandans sem áskrifandi hefur tilkynnt 1984 ehf í stillingum á aðgangsreikningi viðskiptavinar í kerfum 1984.

4. Ef áskrifandi fer ekki að ofangreindum leiðbeiningum um uppsögn á áskrift sinni er áskrifandi ábyrgur fyrir 5000 kr. vinnugjaldi vegna bókhaldsvinnu.

5. Ef persónugögnum er eytt í samræmi við GDPR, eða persónuverndarreglur, þá er öllum gögnum notandans eytt 30 dögum eftir uppsögn á þjónustu[1] . Eftir það verður ekki um endurgreiðslu af neinu tagi að ræða.

4. HUGVERKARÉTTINDI OG VIÐSKIPTALEYNDARMÁL
Skilmálar þessir veita áskrifanda engin réttindi tengd hugverkaréttindum 1984 ehf. er tengjast tækni, lógóum eða vörumerkjum 1984 ehf. 1984 ehf. og áskrifandi binda það fastmælum að hvorugur aðilinn muni á nokkurn hátt, beint eða óbeint, reyna að komast að frumþulum, viðskiptaleyndarmálum eða öðrum málefnum hins.

5. ÖRYGGI OG EIGNARHALD
1. Áskrifandi er að fullu ábyrgur fyrir varðveislu og notkun allra auðkenna sem 1984 ehf. afhendir honum, s.s. lykilorðum, notendanöfnum o.fl. Þá er áskrifandi jafnframt ábyrgur fyrir allri notkun á þeim afleiðingum af notkun þeirra. Jafnframt er áskrifandi ábyrgur fyrir allri notkun á þeim lénum sem eru á hansvegum á kerfum 1984 ehf. Áskrifandi lofar að láta 1984 ehf. vita tafarlaust ef grunur vaknar um að auðkennisupplýsingar hafi mögulega komist í hendur óviðkomandi, ef trúnaðaröryggi auðkennisupplýsinga er með einhverjum hætti ógnað eða ef grunur vaknar um óheimila notkun á þjónustu og kerfum 1984 ehf. 1984 ehf. verður ekki gert ábyrgt fyrir skaða eða tjóni sem hljótast kann af notkun auðennisupplýsinga sem afhentar hafa verið áskrifanda.

2. Þegar stofnað er til þjónustusamnings milli áskrifanda og 1984 ehf. verða færðar til bókar eftirfarandi upplýsingar frá áskrifanda: 1) Nafn áskrifanda, 2) virkt tölvupóstfang áskrifanda, 3) notandanafn sem áskrifandi kann að velja sér, 4) aðgangsorð notanda, 5) virkt símanúmer áskrifanda, 6) kennitala ef áskrifandi er íslenskur, 7) greiðsluupplýsingar, þ.e.a.s. heimilisfang, upplýsingar um greiðslumiðil, o.s.frv., í samræmi við lög um meðhöndlun slíkra upplýsinga og 8) PIN númer sem áskrifandi velur sér.

3. Verði farið fram á afhendingu aðgangsupplýsinga þarf 1984 ehf. ekki afhenda slíkar upplýsingar nema viðkomandi leggi fram eftirfarandi upplýsingar: a) Nafn áskrifandans sem um ræðir, b) Tölvupóstfang áskrifandans eins og það er í bókum 1984 ehf., c) Notendanafn áskrifandans, d) Greiðsluupplýsingar áskrifandans, e) PIN númer áskrifanda. Einnig mun 1984 ehf. afhenda aðgangsupplýsingar þeim er framvísar dómsúrskurði um slíka afhendingu.

4. Áskrifandinn fellst á ofangreint fyrirkomulag um aðgengi að aðgangsupplýsingum og leysir 1984 ehf. undan allri ábyrgð á skaða sem verða kann vegna þess að 1984 ehf. framfylgir fyrirkomulaginu.

6. PERSÓNUUPPLÝSINGAR, UPPLÝSINGA- OG PERSÓNUVERND
1. 1984 ehf. lofar að vernda upplýsingar, þ.á.m. persónuupplýsingar um áskrifanda, með þeim ráðum sem tiltæk eru innan eðlilegra kostnaðarmarka.

2. Áskriftarupplýsingar eru sendar dulkóðaðar yfir internetið þegar áskriftarpöntun er gerð.

3. 1984 ehf. lofar að afhenda ekki þriðja aðila upplýsingar um áskrifanda, nema skv. lögum, dómsúrskurði eða í þeim tilvikum sem nauðsynlegt er að fá þriðja aðila til að rannsaka möguleg brot á þessum skilmálum eða öðrum samningum milli 1984 ehf. og áskrifanda. 1984 ehf. mun ekki afhenda þriðja aðila upplýsingar til notkunar við markaðssetningu vöru eða þjónustu.

7. FYRIRKOMULAG Í DEILDRI HÝSINGU
1. Vefhýsing 1984 ehf. er svokölluð deild hýsing, e. shared hosting service. Það þýðir að margir áskrifendur deila með sér vélbúnaði og/eða sýndarvélbúnaði. Vefhýsingarþjónustu 1984 ehf. er ætlað að uppfylla vefhýsingarþarfir einstaklinga og smærri félaga og fyrirtækja, en ekki þarfir fjölmiðla eða stærri fyrirtækja sem þurfa aðgang að mikilli og stöðugri kerfisgetu, vegna vef- eða póstrekstrar síns. 1984 ehf. áskilur sér allan rétt til að færa þjónustu áskrifanda milli véla og/eða sýndarvéla til að tryggja jafnvægi í notkun vélbúnaðar, eða í hverjum þeim öðrum tilgangi sem 1984 ehf. álítur nauðsynlegan eða hagkvæman.

2. 1984 ehf. áskilur sér allan rétt til að slökkva á eða hamla notkun á þjónustu áskrifanda, tímabundið eða endanlega, ef 1984 ehf. álítur að: 1) notkun áskrifanda á þjónustunni valdi, eða geti valdið, truflunum á rekstri þjónustu annarra notenda í deildri hýsingu, 2) vefur eða þjónusta áskrifanda hafi verið "hökkuð" eða sé af einhverjum ástæðum undir stjórn annarra en áskrifanda sjálfs, 3) að verið sé að brjóta lög eða siðferðisviðmið sem 1984 ehf. telur eðlilegt að gera kröfu um að virt séu af áskrifendum hverju sinni.

3. Í deildri hýsingu er fyrirkomulagið með þeim hætti, að viðskiptavinir deila með sér kerfisgetu vefþjóns, þ.e.a.s. diskplássi, örgjörfum, vinnsluminni og netbandvídd. Því  þýðir "ótakmarkað" ekki að hver og einn geti notað endalaust af kerfisgetu, heldur að gert er ráð fyrir að kerfisþarfir notenda dreifist þannig að meðaltalsnotkun sé við eða undir þeim mörkum sem kerfisgeta hins deilda þjóns býður upp á. "Ótakmarkað" þýðir því að ekki eru sett nein sérstök hámörk á notkun ef meðaltalsnotkun er ásættanleg fyrir kerfið. Þannig geti sumir notendur notað meira diskpláss en aðrir meiri netbandvídd o.s.frf.  Í notkunaráætlun deilds þjóns er gert er ráð fyrir tímabundnum sveiflum í notkun hjá hverjum og einum, þannig að tímabundin aukin kerfisþörf hjá notanda er í besta lagi. Þeir notendur sem hins vegar þurfa viðvarandi mikla kerfisgetu munu hins vegar þurfa að færa sig yfir í lausnir sem gera ráð fyrir slíkri notkun.

4. Kerfisgeta (bandvídd, diskapláss, örgjörvanotkun o.s.frv) sem fylgir deildri hýsingu skal aðeins notuð til rekstrar þeirra vefja og tölvupóstþjónustu sem hýsingunni ber að sinna. Þannig er t.d. óheimilt að nota diskpláss á deildri hýsingu til geymslu gagna sem ekki eru hluti þeirra vefja eða gagnagrunna sem vefhýsingunni er ætlað að sinna.

5. Ef 1984 ehf. ákveður að stöðva þjónustu endanlega gilda ákvæði gr. 3.02 um endurgreiðslu á hýsingargjöldum.

8. ÓHEIMIL NOTKUN HÝSINGARÞJÓNUSTU
1. Útsendingar á ruslpósti, (unsolicated commercial email) eru bannaðar á þjónum 1984 ehf. og leiða til tafarlausrar stöðvunar allrar þjónustu áskrifanda. Þetta á við um allan fjöldapóst á póstlista eða sambærilega hópa þar sem móttakendur hafa ekki gefið samþykki sitt fyrir sendingunum, að mati 1984 ehf., eða ef ómögulegt eða torvelt er fyrir móttakendur að segja sig af slíkum lista, einnig að mati 1984 ehf.

2. Bannað er að bjóða, selja eða tengja við aðrar vefsíður sem bjóða, selja eða sýna eftirfarandi varning: a) Ávana- eða fíkniefni og/eða vörur eða þjónustu því tengdar, b) Vopn, c) Höfundarréttarvarið efni sem áskrifandi hefur ekki rétt til að bjóða eða selja, d) upplýsingar til að brjóta höfundarrétt eða vörumerkjaréttindi annarra, e) upplýsingar til að framleiða, búa til eða útvega ólöglegan varning eða vopn, f) klámefni eða kynlífsvarning, g) skráardeilingu, h) lyf, i) annað ólöglegt, skaðlegt eða siðferðislega ámælisvert efni eða upplýsingar, að mati 1984 ehf.

3. Hvers konar námagröftur (e. cryptomining) er óheimill á kerfum 1984

4. 1984 ehf. áskilur sér fullan og skilyrðislausan rétt til að meta hvort lokað verði á þjónustu til áskrifanda, með eða án fyrirvara, ef 1984. ehf. álítur efni það sem áskrifandi vistar ólöglegt, siðlaust eða skaðlegt. Það sama á við ef viðskiptavinur hótar 1984 ehf. eða starfsmönnum 1984 ehf með nokkrum hætti. Eingöngu mat 1984 ehf. gildir í þessum efnum. Áskrifandi afsalar sér öllum bótakröfum á hendur 1984 ehf. vegna mögulegs tjóns sem ákvörðun tekin á þessum forsendum kann að valda honum.

5. Bannað er að endurselja eða leyfa þriðja aðila notkun á deildri hýsingu hjá 1984 í heild eða að hluta, hvort sem áskrifandi tekur fyrir það gjald af þriðja aðila eða ekki, nema áskrifandi hafi gert samning um endursölu við 1984.

9. YFIRLÝSING UM TAKMÖRKUN ÁBYRGÐAR
1. Áskrifandi, skilur og fellst á að þjónusta sú, er 1984 ehf. lofar að veita, er veitt eftir bestu getu starfsmanna 1984 ehf. á hverjum tíma, án nokkurrar ábyrgðar af hálfu 1984 ehf. um gæði, áreiðanleika, hraða, villuleysi eða virkni. Áskrifandi fellst á þetta fyrirkomulag og afsalar sér öllum bótakröfum á hendur 1984 ehf. sem kunna að stofnast af völdum villna, bilana, aðgengisskorts, gagnataps, minnkaðs hraða eða skorts á virkni þeirrar þjónustu sem 1984 ehf veitir. Gildir þetta án tillits til sakar starfsmanna 1984. ehf.

2. Afritun vefgagna á deildri hýsingu og fyrirtækjahýsingu er gerð eftir bestu getu hverju sinni (e. best effort service). Afritunin er framkvæmd þegar 1984 hentar með þeirri tíðni sem 1984 hentar. 1984 framkvæmir ekki afritun ef samanlögð stærð vefsvæðis og gagnagrunna er meira en 30 Gígabæti. 1984 geymir afrit í 30 daga og eftir það eru þau yfirskrifuð. 1984 tekur ekki ábyrgð á gæðum afrita, mistökum við afritun, gagnaskemmdum í afritum eða þjónustugæðum við afritun. 1984 hvetur viðskiptavini eindregið til að gera eigin afrit og geyma þau utan kerfa 1984 og helst fleiri en einum stað.

10. FreeDNS ÞJÓNUSTA.
1. DNS nafnaþjónusta 1984 ehf heitir FreeDNS. FreeDNS er ókeypis þjónusta og er veitt eftir bestu getu starfsmanna 1984 ehf. á hverjum tíma, án nokkurrar ábyrgðar af hálfu 1984 ehf. um gæði, áreiðanleika, hraða, villuleysi eða virkni.

2 Almennir notkunarskilmála um þjónustu 1984 ehf gilda um FreeDNS að breyttu breytanda. 1984 ehf áskilur sér skilyrðislausan rétt til að hamla eða stöðva alla þjónustu eða að hluta, eftir mati 1984, við notendur FreeDNS þjónustunnar álíti 1984 að notkun sé ekki í samræmi við almenna notkunarskilmála 1984 eða gangi gegn bókstaf þeirra og/eða anda.

11. VARNARÞING OG LÖG
1. Um skilmála þessa fer að íslenskum lögum. Mál sem kunna að rísa út af þeim skal reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

 

Þjónustuskilmálar voru síðast uppfærðir 21. júlí, 2021.